Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 817  —  519. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2001.

Inngangur.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Undanfarin ár og missiri hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu og friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði verið langveigamestu verkefni ÖSE, en á þessum stöðum hefur stofnuninni verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðla og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Þá hefur ÖSE tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu sem tók gildi 10. júní 1999 og ÖSE á aðild að, einkum þeim hluta framkvæmdar sáttmálans er snýr að mannréttindum og lýðræðisþróun en jafnframt í öryggismálahlutanum. Umsvif ÖSE í Kosovo-héraði eru afar fyrirferðarmikil í starfi stofnunarinnar en hlutverk ÖSE þar hefur aðallega miðast að lýðræðisþróun, góðri stjórnsýslu, framkvæmd kosninga og kosningaeftirliti, og stuðningi við frjálsa fjölmiðla. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu. Þema ársfundarins sem haldinn var í París í júlí var umfjöllun um öryggismál og hættuástandsstjórnun í Evrópu og hlutverk ÖSE í þessum málaflokki á nýrri öld.
    Fram að árinu 2000 hafði Júgóslavíu ekki staðið til boða að taka þátt í störfum þingsins síðan þátttaka þess í starfi ÖSE var felld niður árið 1992. En í kjölfar sigurs lýðræðisaflanna í landinu í forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningunum árið 2000 og handtöku Slobodans Milosevics, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, var stjórnvöldum Júgóslavíu boðin þátttaka á ný. Sendinefnd þings Júgóslavíu tók því sæti sitt á ÖSE-þinginu. Kraftar ÖSE hafa einkum beinst að málefnum Balkanskaga í kjölfar mikils umróts á svæðinu. Pólitískur órói og vopnuð átök milli stjórnarhers fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu og skæruliðasveita albanska minni hlutans í landinu ógnuðu mjög stöðugleika í þessum hluta álfunnar framan af árinu. ÖSE átti stóran þátt í því, ásamt NATO og Evrópusambandinu (ESB), að koma í veg fyrir að umfangsmikil átök brytust út milli þjóðernishópanna sem landið byggja. Í lok ársins hafði stofnunin aukið mjög við viðbúnað sinn í landinu og sinnti þar eftirlitsverkefnum á borð við m.a. afvopnun skæruliða og réttindi minnihlutahópa. Af öðrum málefnum sem báru hátt í störfum ÖSE á árinu má nefna stöðu mála í Norður-Kákasushéraðinu og lýðræðisþróunina í Hvíta-Rússlandi. Þá höfðu afleiðingar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í septembermánuði mikil áhrif á störf ÖSE líkt og annarra samevrópskra stofnana og á fundum ráðherranefndar og ÖSE-þingsins var lýst yfir eindregnum stuðningi við hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 2001:
    Fram til 26. apríl voru aðalmenn Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks, varaformaður, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Pétur Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingar, og Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks.
    Í kjölfar þess að Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðismálaráðherra lét af þingmennsku tók Magnús Stefánsson sæti hennar á Alþingi og jafnframt varaformannssæti það í Íslandsdeildinni sem Jónína Bjartmarz hafði skipað.
    Kosið var í nýja Íslandsdeild í upphafi 127. þings. Fulltrúar í Íslandsdeild voru hinir sömu og á afstöðnu þingi en 10. október tók Magnús Stefánsson við formennsku af Guðjóni Guðmundssyni og Ásta R. Jóhannesdóttir tók við sem varaformaður. Frá og með 10. október voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar því Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingar, varaformaður, og Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.

Starfsemi á árinu 2001.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 22.–23. febrúar sl. fundaði stjórnarnefnd ÖSE-þingsins í Vín. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar Guðjón Guðmundsson formaður, auk ritara. Helsta málefni fundarins voru fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins en fyrir fundinn höfðu verið lögð fyrir drög að umfangsmiklum breytingum sem m.a. gerðu ráð fyrir að auka umfang starfs þingsins með þeim hætti að breyta hinum árlegu stjórnarnefndarfundum í febrúarmánuði í þingfund þar sem stjórnarnefndin og allar málefnanefndir þingsins kæmu saman og ræddu brennandi mál og ættu þann kost að geta lagt spurningar fyrir embættismenn ÖSE.
    Þá fluttu embættismenn ÖSE framsögur þar sem farið var yfir árangur starfs stofnunarinnar í nokkrum aðildarríkjum, svo sem kosningaeftirlit í Aserbaídsjan, Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu, og á hinum ýmsu málefnasviðum, svo sem fjölmiðlun og mannréttindum. Á fundinum var og talsvert rætt um þá ógn sem stafaði af starfsemi skipulegra skæruliðahópa í Suðaustur-Evrópu.
    Staða sendinefndar Hvíta-Rússlands hafði verið í nokkru uppnámi innan ÖSE-þingsins (og annarra alþjóðlegra þingmannasamtaka) allt síðan í þingkosningum þar í landi í október 2000. Síðan þá höfðu fulltrúar tveggja „þingdeilda“ gert tilkall til þess að vera lögmætir fulltrúar kjósenda í landinu. Annars vegar var um að ræða fulltrúa sem kosnir voru til hvít-rússneska þingsins árið 1996 og neituðu að hverfa af þingi eftir að úrslit kosninganna 2000 voru kunngerð og hins vegar þeir sem kosnir voru árið 2000. Hefur þessi harðvítuga deila þingdeildanna borist inn á borð alþjóðaþingmannasamtaka líkt og ÖSE-þingsins. Vitað var fyrir fundinn að tvær sendinefndir þingmanna frá Hvíta-Rússlandi mundu mæta til Vínarborgar og var því skipuð sérstök nefnd til að álykta um hvor sendinefndin hefði réttmætt kjörbréf. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hvorug sendinefndin tók sæti Hvíta-Rússlands á fundinum. Taldi nefndin annars vegar að kosningarnar í október hefðu ekki uppfyllt alþjóðleg skilyrði um frjálsar kosningar og hins vegar að kjörtímabil gamla þingsins væri útrunnið. Ætti sæti Hvíta-Rússlands því að vera autt þar til lýðræðiskröfum væri fullnægt. Rússar og Armenar lýstu sig mótfallna þessu en samkvæmt samstöðureglu ÖSE-þingsins eru tvö mótatkvæði nægileg til að fella mál. Margir urðu til þess að gagnrýna afstöðu Rússa, þar á meðal formaður bandarísku sendinefndarinnar sem sagði að niðurstaða nefndarinnar væri sú eina færa að svo komnu máli. Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins, kvað upp úr um að sæti Hvíta-Rússlands yrði autt þar til á ársfundinum í París 6.–10. júlí en þá yrði málið tekið til endurskoðunar.
    Eftirfarandi aðilar héldu framsögur og svöruðu spurningum fundarmanna: Jan Kubis sendiherra, framkvæmdastjóri ÖSE; Max van der Stoel; yfirmaður þeirrar stofnunar ÖSE sem fer með málefni minnihlutahópa; Freimut Duve, sérlegur fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla; Thomas Price, sem fer með samræmingu á starfi ÖSE í efnahags- og umhverfismálum; rúmenski sendiherrann Liviu Aurelian Botam, formaður fastanefndar ÖSE; dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins; Mircea Dan Geoana, utanríkisráðherra Rúmeníu, sem er í forsæti ÖSE 2001; og Russel-Johnston lávarður, forseti Evrópuráðsþingsins.
    Í framsögu sinni ræddi Jan Kubis um mikilvægi ÖSE-þingsins og taldi mikla nauðsyn á því að auka tengslin milli stofnunarinnar og þingmannasamkundunnar. Fór hann yfir helstu málefni ÖSE á undangengnu ári og ræddi sérstaklega þann mikla árangur sem náðst hefði af miðstöð fyrir hættuástandsstjórnun sem komið hefði verið upp hjá höfuðstöðvum ÖSE í Vínarborg árinu áður. Þá vék Kubis að auknum tengslum ÖSE við aðrar alþjóðastofnanir sem störfuðu á svipuðum vettvangi og mikilvægi aðgreiningar verkefna. Taldi hann að hinn mikli fjöldi sendinefnda sem ÖSE héldi úti, t.d. á Balkanskaga og í Mið-Asíu, hefði skilað ríkum árangri þrátt fyrir að um afar kostnaðarmikla starfsemi væri að ræða.
    Max van der Stoel hefur starfað ötullega að því að afla ÖSE mikillar virðingar á alþjóðavettvangi undanfarin ár og missiri og hefur átt ríkan þátt í að leysa úr fjölda átakamála innan aðildarríkja stofnunarinnar á undanförnum árum. Van der Stoel lét af störfum á árinu og var það því í síðasta sinn á stjórnarnefndarfundinum sem hann ávarpaði þingmenn ÖSE-þingsins. Í framsögu sinni vék hann að þeim árangri sem ÖSE hefði náð á Balkanskaga og þá einkum í fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu þar sem, fyrir milligöngu stofnunar þeirrar sem van der Stoel veitir forstöðu, hafði náðst samkomulag milli stjórnvalda og albanska minni hlutans um breytta löggjöf landsins sem gerði það kleift að stofna albanskan háskóla. Þá ræddi van der Stoel um þróunina í Króatíu en þar náðist samkomulag um nýtt stjórnarskrárákvæði um stöðu minnihlutahópa fyrr á árinu. Í lok framsögunnar þakkaði Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins, Max van der Stoel fyrir afar vel unnin störf á vettvangi ÖSE fyrir hönd ÖSE-þingsins.
    Freimut Duve ræddi um samstarf ÖSE og Evrópuráðsins á sviði fjölmiðlunar og sagði það vera afar farsælt og sýndi fram á að með fjölþjóðastofnunum sem starfi á svipuðum sviðum þyrfti ekki endilega að vera samkeppni. Í máli hans kom fram að fjölmiðlafólki væru miklar skorður settar í mörgum aðildarríkjum ÖSE og hvatti til þess að ÖSE-þingið hefði frumkvæði að ályktun um óhindruð störf frétta- og blaðamanna. Þá ræddi hann um erfiðar starfsaðstæður fréttamanna í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og hversu stofnuninni væri þröngur stakkur skorinn hvað varðar vernd til handa fjölmiðlafólki. Nefndi hann sem dæmi að samkvæmt starfsreglum ÖSE gæti stofnunin ekki samið við aðra aðila en stjórnvöld og því væri víða erfitt að tryggja vernd fjölmiðlafólki til handa.
    Í máli Thomas Price kom fram að ekki væri nægileg tenging milli starfsins sem fram færi hjá ÖSE-þinginu og stofnuninni sjálfri. Taldi hann að ályktanir þingsins næðu alls ekki eyrum ráðherraráðsins og því bæri að efla þingið. Þá taldi hann að mun meira mætti koma til hjá fastanefndum ríkja hjá ÖSE og hjá embættismönnum ÖSE með það að markmiði að auka vægi þingsins. Þingmenn voru sammála um að fyrirhugaðir vetrarfundir ÖSE-þingsins gætu orðið til þess að auka veg þess innan stofnunarinnar. Price sagði jafnframt að ÖSE væri á miklum krossgötum nú um stundir og mikil endurskoðun á starfsháttum stofnunarinnar væri í bígerð. Formaður bandarísku sendinefndarinnar tók undir þessi sjónarmið og sagði mikla þörf á að auka gagnsæi stofnunarinnar. Í því augnamiði taldi hann rétt að fundir fastanefndarinnar færu fram fyrir opnum tjöldum.
    Mircea Dan Geoana, utanríkisráðherra Rúmeníu, sagðist í ávarpi sínu þess fullviss að áhrif ÖSE væru ekki jafnmikil og raun bæri vitni ef þingmannasamkundunnar nyti ekki við. Ráðherrann ræddi þá um helstu stefnumálin í formennskutíð Rúmeníu í ÖSE. Mikilvægi lýðræðisþróunarinnar í Suðaustur-Evrópu bar þar einna hæst og sagði hann að á yfirstandandi ári mundi ÖSE leita allra leiða til að sporna við óstöðugleika á svæðinu og leysa úr ágreiningsmálum þjóðarbrota. Þá ræddi hann um mikilvægi stöðugleikasáttmála Evrópu og kvað hann þarfnast endurnýjunar ef árangur ætti að nást. Sagði hann jafnframt að kosningaeftirlit ÖSE hefði reynst afar vel árið 2000 og ræddi m.a. um niðurstöður kosninganna í Aserbaídsjan, Serbíu og Moldavíu. Þá vék hann að málefnum Hvíta-Rússlands og sagði brýna þörf á að leysa úr þeim pólitíska vanda sem þar hefði skapast.
    Á fundinum greindi Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins, stjórnarnefndinni frá áhersluatriðum sínum og lagði mikla áherslu á að taka yrði starfsemi þingsins til gagngerrar endurskoðunar þar sem grundvallarspurningum líkt og hvert hlutverk þess ætti að vera yrði svarað. Þá taldi hann að mun meira yrði að gera til að tengja ályktanir ÖSE-þingsins við löggjöf í aðildarríkjum ÖSE meðal annars með þeim hætti að á þjóðþingum inntu þingmenn ráðherra eftir svörum um málefni sem falla undir verksvið ÖSE. Sagðist hann og binda miklar vonir við að með breytingum á starfsháttum þingsins styrktist starf þess til muna.
    Þá voru ræddar skýrslur um kosningaeftirlit í Serbíu, Bosníu og Hersegóvínu, Hvíta-Rússlandi, Moldavíu og Kosovo-héraði. Í flestum tilfellum var það niðurstaða eftirlitsnefnda ÖSE-þingsins að nokkuð vantaði á að alþjóðleg skilyrði um frjálsar og lýðræðislegar kosningar hefðu verið uppfyllt. Nokkur umræða varð um yfirstaðnar kosningar í Hvíta-Rússlandi og lýstu menn yfir áhyggjum sínum af ástandinu þar. Þema þingfundarins árið 2001 var einnig rætt, en aðeins ein tillaga hafði verið borin upp. Að frumkvæði Adrians Severins, forseta þingsins, var tillagan „Öryggismál og hættuástandsstjórnun í Evrópu: Hlutverk ÖSE á 21. öld“ lögð fram og samþykkt mótatkvæðalaust.
    Fyrir fundinn höfðu verið lagðar fram umfangsmiklar breytingartillögur framkvæmdastjórnar við starfsreglur þingsins og voru þær samþykktar samhljóða á stjórnarnefndarfundinum. Ákveðið var að efna til sérstakra vetrarfunda þar sem hinar þrjár málefnanefndir þingsins kæmu saman auk hinna hefðbundnu stjórnarnefndarfunda. Fundir þessir yrðu í Vínarborg og stæðu ekki lengur en þrjá daga í senn. Megintilgangur fundanna yrði að ræða og meta starf ÖSE á því tímabili sem liðið er frá ársfundinum og væri ætlunin að fundahöldin yrðu til þess að styrkja tengsl stofnunarinnar og þingsins. Þá ákvað stjórnarnefndin að breyta starfsreglum um breytingartillögur og utandagskrárumræður. Var ákveðið að breytingartillögur við ályktanadrög yrðu lagðar fram 14 dögum fyrir ársfund og að tillögur að utandagskrármálum yrðu lagðar fram 21 degi fyrir ársfund. Var það mat embættismanna ÖSE-þingsins að samkvæmt tímamörkum þeim sem áður giltu hefði starfsfólk þingsins verið ófært um að afgreiða skjöl í tæka tíð. Einnig var ákveðið að samstöðureglunni (consensus-minus-one) yrði breytt á þann hátt að frá og með 2001 yrði stuðst við afbrigði hennar (consensus-minus-two) sem í raun segði að til að fella mál væru mótatkvæði þriggja eða fleiri ríkja nægjanleg í stað tveggja eða fleiri áður. Þá var enn fremur samþykkt að fulltrúar á ÖSE-þinginu gætu hvenær sem væri sent formanni ráðherraráðsins eða öðrum fulltrúum þess allt að þrjár fyrirspurnir árlega.

b. 9. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Dagana 6.–10. júlí var tíundi ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðjón Guðmundsson formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður og Magnús Stefánsson, auk ritara. Þema fundarins var evrópsk öryggismál og hættuástandsstjórnun og hlutverk ÖSE á nýrri öld og tóku skýrslur og ályktanir nefndanna þriggja mið af meginþemanu, þar sem fjallað var m.a. um öryggis- og varnarmál Evrópu, samspili efnahagsþátta og umhverfisþátta í öryggismálum álfunnar og stöðu minnihlutahópa í aðildarríkjum ÖSE.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Þátttaka Íslandsdeildarinnar var sem hér segir:
1. nefnd um stjórnmál og öryggismál: Guðjón Guðmundsson.
2. nefnd um efnahagsmál, vísindamál,     tæknimál og umhverfismál: Magnús Stefánsson.
3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Ásta R. Jóhannesdóttir.
    Á fundinum samþykktu þingmenn aðildarríkjanna samhljóða ályktun, sem lögð var fram að frumkvæði Adrians Severins, forseta ÖSE-þingsins, sem kvað á um að stefna bæri að því að styrkja gagnsæi og skilvirkni stofnunarinnar. Í ályktuninni kom fram að áður en ÖSE tæki mikilvægar ákvarðanir mundu ályktanir ÖSE-þingsins liggja til grundvallar og að skýrt yrði fyrir þinginu hvernig ákvörðunum yrði fylgt eftir. Þá mæltist ÖSE-þingið til þess að svo fremi sem ÖSE starfaði eftir samstöðureglunni (consensus rule) þá yrði ógerlegt fyrir ríki að taka þátt í ákvörðunartökuferlinu með leynilegum hætti og að fyrirvara sem tiltekin ríki gerðu yrði að kunngera fyrir fundi. Ályktunin kvað jafnframt á um að þingið yrði upplýst um fjármál stofnunarinnar og að fundir fastanefndar ÖSE í Vínarborg yrðu opnir almenningi. Í þessu augnamiði hefur ÖSE-þingið samþykkt að koma á fót nefnd sem hefur gagnsæi og skilvirkni í sínum verkahring og mun hún starfa náið með embættismönnum ÖSE.
    Ályktanir Parísarfundarins voru sameinaðar í eina stóra ályktun, Parísar-yfirlýsingu ÖSE-þingsins, sem samþykkt var á þingfundi 10. júlí. Auk ályktana málefnanefndanna þriggja innihélt Parísar-yfirlýsingin ályktanir um afnám dauðarefsingar, bann við notkun pyntinga, leiðir til að stemma stigu við mansali, baráttuna gegn alþjóðlegri skipulegri glæpastarfsemi og fjölmiðlafrelsi. Í yfirlýsingunni var enn fremur vikið að aðstæðum og þeim vanda sem steðjar að í Suðaustur-Evrópu, Norður-Kákasushéraðinu, Moldavíu og Úkraínu.
    Í fyrstu nefnd (nefnd um stjórnmál og öryggismál) var fjallað um skýrslu ungverska þingmannsins András Bársonys um öryggis- og varnarmál álfunnar og hlutverk ÖSE. Í ályktuninni var hvatt til þess að hugað yrði að því að ÖSE og jafnvel Sameinuðu þjóðunum yrði gert kleift að nýta getu Evrópusambandsins (ESB) í öryggis- og varnarmálum, sbr. friðargæslu, hættuástandsstjórnun og framfylgd friðar. Nokkur umræða varð á nefndarfundum um inntak skýrslunnar og kom m.a. fram nokkur gagnrýni hjá formanni nefndarinnar á fyrirætlanir ESB í þessum málaflokki. Ræddi hann sérstaklega um stöðu þeirra sex aðildarríkja NATO sem stæðu utan ESB, þ.m.t. Íslands. Þá var einnig vikið að mikilvægi þess að öryggis- og varnarmálastefna ESB lyti þingræðislegri stjórn og var fast kveðið á um að sú stjórn heyrði undir þjóðþing aðildarríkja ESB. Í ályktuninni var einnig kveðið á um að leitað yrði ýtrustu leiða til að styrkja eftirlit með viðskiptum með léttvopn. Þá urðu miklar umræður um fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar í eldflaugavörnum en í ályktunardrögum fyrstu nefndar voru aðildarríki ÖSE hvött til að brjóta ekki í bága við ABM-sáttmálann, sem kveður á um bann við gagneldflaugum. Meginhluti bandarísku sendinefndarinnar sat hjá við atkvæðagreiðslu um greinina.
    Í annarri nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál) var fjallað um skýrslu svissneska þingmannsins Barböru Haering um efnahagslega þætti öryggis- og varnarmála í álfunni. Í ályktuninni var hvatt til þess að aðildarríki ÖSE hygðu frekar að samspili umhverfislegra og efnahagslegra þátta við öryggi í Evrópu. Var kveðið sérstaklega á um að ríkari þjóðir Evrópu styddu við bakið á fátækari þjóðum Mið- og Austur-Evrópu með það fyrir augum að þau tækju fullan þátt í hinu hnattræna hagkerfi á jafnræðisgrundvelli. Var lögð sérstök áhersla á að hugað yrði sérstaklega að eflingu smárra og meðalstórra fyrirtækja og lagt til að alþjóðleg fjármagnsaðstoð tæki mið af þessum markmiðum. Þá var lagt til að löggjöf ríkja yrði löguð að forsendum kvenna og þeim gert unnt að stunda viðskipti til jafns á við karla. Enn fremur var vikið að alþjóðlegri glæpastarfsemi og mansali og aðildarríkin hvött til þess að gera sitt ýtrasta til að sporna við þeirri þróun. Jafnframt var ÖSE hvött til að efla samstarf við NATO, ESB, Sameinuðu þjóðirnar og frjáls félagasamtök til að ná þessum markmiðum.
    Í þriðju nefnd (nefnd um lýðræði og mannréttindamál) var fjallað um skýrslu rússneska þingmannsins Elönu Mizulina um stöðu minnihlutahópa í Evrópu. Í ályktuninni voru stjórnvöld þeirra aðildarríkja ÖSE sem enn hafa ekki breytt löggjöf sinni um ríkisborgararétt og dvalarleyfi til samræmis við alþjóðlega staðla um vernd einstaklingsins og minnihlutahópa, að gera það hið fyrsta. Var þar sérstaklega vikið að lagasetningu um forsendur þess að einstaklingar fengju ríkisborgararétt eða missi rétt til ríkisfangs. Í ályktun annarrar nefndar var enn fremur vikið að því að ÖSE bæri að styrkja úrbætur í dómskerfum aðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu og hvatt til þess að stofnunin styrkti enn fremur samstarf sitt við Evrópuráðið í þessum málaflokki. Þá var enn fremur hvatt til þess að öll aðildarríki ÖSE hrintu skuldbindingum sínum um fjölmiðlafrelsi og málfrelsi í framkvæmd hið fyrsta og styddu sjálfstæði fjölmiðla og fjölræði. Ásta R. Jóhannesdóttir var meðflutningsmaður nokkurra breytingartillagna í nefndinni og bar tvær þeirra fram á nefndarfundi. Voru þær samþykktar samhljóða.
    Í Parísar-yfirlýsingunni var ályktað um stöðu mála í Suðaustur-Evrópu og þar fordæmdi ÖSE-þingið ofbeldisverk albanskra skæruliðahópa í fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu, Kosovo-héraði og suðurhluta Serbíu. Hvatti þingheimur til þess að lögmætir pólitískir fulltrúar slavneskra og albanskra íbúa Makedóníu, auk fulltrúa annarra minnihlutahópa, settust að samningaborði hið allra fyrsta og greiddu þannig fyrir úrlausn hinnar afar brýnu ágreiningsefna þjóðernishópanna sem staðið hefðu friðarferlinu fyrir þrifum. Þá vék ályktunin einnig að mikilvægi stöðugleikasáttmálans fyrir frið, hagsæld og stöðugleika í þessum hluta álfunnar. Í ályktun þingsins um stöðu mála í Norður-Kákasushéraðinu voru hlutaðeigandi aðilar hvattir til þess að virða landamæri og leita allra leiða til að komast hjá svæðisbundnum óstöðugleika. Fagnaði þingið því að sendinefnd ÖSE í Tsjetsjeníu skyldi hafa snúið aftur til héraðsins og voru vonir bundnar við að það gæti orðið til friðsamlegrar úrlausnar mála. Í ályktun þingsins um Úkraínu var lýst yfir áhyggjum um þróun og úrbætur í lýðræðis- og efnahagsmálum landsins og stjórnvöld landsins hvött sérstaklega til að upplýsa hvarf úkraínska blaðamannsins Georgiy Gongadze hið allra fyrsta.
    Þingfundinn ávörpuðu m.a. eftirtaldir: Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins; Raymond Forni, forseti fulltrúadeildar franska þingsins; Christian Poncelet, forseti öldungadeildar franska þingsins; Hubert Védrine, utanríkisráðherra Frakklands; Mircea Geoana, utanríkisráðherra Rúmeníu og formaður ráðherraráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu; Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE; Rafael Estrella, forseti NATO-þingsins; Russel-Johnston lávarður, forseti Evrópuráðsþingsins; Svend-Erik Hovmand, forseti Norðurlandaráðs; og Klaus Bühler, forseti VES-þingsins.
    Á þingfundinum voru blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins veitt í sjötta sinn. Að þessu sinni var ákveðið að veita verðlaununum til spænska blaðamannsins José Luis López de Lacalle og úkraínska blaðamannsins Georgyi Gongadze, en báðir létu þeir lífið vegna starfa sinna við að upplýsa almenning um spillingu og hryðjuverk. De Lacalle var myrtur í sprengjutilræði Aðskilnaðarhreyfingar Baska (ETA) eftir að hafa gagnrýnt ofbeldisverk samtakanna. Gongadze hvarf sporlaust á síðasta ári eftir að hafa gagnrýnt stjórnvöld í Úkraínu harðlega og er talið að hann hafi verið myrtur af útsendurum stjórnvalda. Eftirlifandi eiginkonur blaðamannanna veittu verðlaununum viðtöku.
    Á lokadeginum var Adrian Severin endurkjörinn forseti ÖSE-þingsins og mun hann gegna stöðunni til næsta þingfundar sem haldinn verður í Berlín í júlí 2002. þá var kosið í þrjár stöður varaforseta þingsins. Flest atkvæði hlutu bandaríski þingmaðurinn Alcee Hastings, finnski þingmaðurinn Kimmo Kiljunen og tyrkneski þingmaðurinn Ahmet Tan. Alls voru sex í framboði.
    Loks héldu þingkonur sérstakan fund þar sem m.a. var fjallað um stöðu kvenna innan þingsins. Fram kom að konur væru einungis í um helmingi landsdeildanna og voru konur sérstaklega hvattar til að gefa kost á sér í laus embætti innan þingsins. Á fundinum vakti Ásta R. Jóhannesdóttir athygli á átaksverkefni því sem íslensk stjórnvöld stóðu fyrir árið 1995 og miðaði að því að auka hluta kvenna í stjórnmálum. Átakið vakti mikla athygli fundarmanna.

c. Kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið hefur frá upphafi tekið virkan þátt í kosningaeftirliti og lagt áherslu á mikilvægi þess að efla lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Jafnframt hefur ÖSE hvatt þingið til að sinna þessu starfi. Árið 2001 tók ÖSE-þingið m.a. þátt í kosningaeftirliti í Serbíu, Kosovo-héraði, Aserbaídsjan og Svartfjallalandi.
    Íslandsdeildin tók þátt í kosningaeftirliti ÖSE-þingsins í Svartfjallalandi á árinu er Jónína Bjartmarz hélt til Podgorica, höfuðborgar landsins, dagana 17.–24. apríl. Alls voru 15 þingmenn í eftirlitsnefnd ÖSE-þingsins auk fjölmargra eftirlitsaðila frá Evrópuráðinu og öðrum alþjóðastofnunum. ÖSE lagði það mat á framkvæmd kosninganna að þær hefðu uppfyllt alþjóðleg skilyrði um lýðræðislegar kosningar.

d. Annað.
    Forseti ÖSE-þingsins hefur á árinu setið fundi fyrrverandi, núverandi og verðandi formanna ráðherraráðsins, auk þess að heimsækja nokkur aðildarríki ÖSE. Þá stóð ÖSE-þingið fyrir málþingi um mansal og skipulagða glæpastarfsemi í Portúgal dagana 4.–5. október 2001 í samvinnu við portúgalska þingið. Var stjórnarnefndarfundur haldinn jafnhliða málþinginu og var þar samþykkt einróma ályktun um stuðning við Bandaríkjastjórn í viðleitni sinni að uppræta alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Í ályktuninni voru ríkisstjórnir allra aðildarríkja ÖSE jafnframt hvattar til að leggja sitt af mörkum í þessari baráttu.

Alþingi, 20. jan. 2002.

Magnús Stefánsson,


form.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Guðjón Guðmundsson.



Fylgiskjal I.


Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er því ætlað að:
     1.      meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr ágreiningi,
     4.      stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að þau ríki sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglur ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Þá er gert ráð fyrir að málefnanefndir komi saman í Vínarborg ár hvert og hlýði þar á framlag embættismanna ÖSE. Auk þingfundar er miðað við að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál á afmörkuðu sviði. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (3. nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Samkvæmt þingsköpum ÖSE-þingsins skal þingið og framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skulu teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri samstöðureglu (consensus rule) sem gildir á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins lýtur svokallaðri consensus minus two reglu sem felur í sér að þrjú eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan.
Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.


Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A. Bandaríkin 17 17
B. Rússland 15 15
C. Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland 13 52
D. Kanada og Spánn 10 20
E. Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland 8 48
F. Rúmenía 7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan 6 78
H. Búlgaría og Lúxemborg 5 10
I. Júgóslavía og Slóvakía 4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía 3 54
K. Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó 2 8
Samtals 317
Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.